Prenta |

Eldstæði grafið upp

Höfundur: Hrönn Konráðsdóttir.

615013 505028956181113 949091114

Í dag var byrjað að grafa uppúr eldstæðinu sem sést hér á myndinni að ofan. Það er staðsett í Norðvesturhorni núverandi uppgraftrarsvæðis og hefur verið í notkun einhvertíman á 9-11 öld. Það virðist vera þrískipt og þá mögulega fyrir þrjú mismunandi stig á einhverskonar vinnslu, en það er þó bara ágiskun að svo stöddu. Sýni verða tekin úr eldstæðinu og rannsóknir á þeim gætu mögulega gefið betri hugmynd um hvernig það var notað.

 

Mörg eldstæði hafa fundist á uppgraftrarsvæðinu og hafa sum þeirra verið í notkun í þónokkurn tíma eða jafnvel endurnýtt sem sést þá aðalega á því að þau eru greinilega lagskipt. Í eldstæðum finnast kol og aska, en þau geta meðal annars líka innihaldið móösku, brennd bein, brenndar skordýraleifar, fræ og korn. Á sniðinu af eldstæðinu hér að neðan má sjá bæði svarta kolaflekki og bleika móösku. Það verður spennandi að sjá hvað kemur upp úr þessu eldstæði og að sjá hvernig það hefur verið byggt því aðferðin sem notuð er við uppgröftin miðast við að fjarlæga mannvistarlögin í öfugri tímaröð.