Prenta |

Snældusnúðar

Höfundur: Sólrún Inga.

Brot af snældusnúði / Piece of a spindle whorl

Í síðustu viku fannst brot úr snældusnúði sem er úr rauðum sandsteini en í sumar hafa þá fundist þrjú slík brot. Brotin eru öll frá um 10. öld, en annars hafa snældusnúðar fundist í fornleifauppgröftum víða um land og í kumlum. Á Alþingisreitnum hafa fundist alls 12 snældusnúðar eða brot úr snældusnúðum. Þeir eru úr viði eða steini, innfluttum og íslenskum.

Að spinna þráð er mörg þúsund ára gömul hefð í heiminum en allt að 9000 ára gamlir snældusnúðar hafa fundist í Mið- Austurlöndum. Oftast eru þeir einu áþreifanlegu minjarnar um þessa fornu hefð. Elstu textílar sem fundist hafa í heiminum eru úr höri en talið er að fólk hafi byrjað að spinna úr kinda ull um 4000-3500 árum f.Kr. Snældusnúðarnir eru mismunandi að lögun. Hér fyrir neðan eru nokkrir frá 10. Öld f.Kr. sem fundust á Grikklandi.

Snældusnúðar frá Grikklandi / Greek Spindle Whorls

Snældusnúður er hluti af halasnældu sem notuð var til þess að spinna þræði fyrir vefnað eða textílgerð. Snúðarnir eru flestir hringlaga með gati í miðju þar sem mjóum tréteini er stungið í gegn, eða svonefndum hala, en þeir finnast sjaldnar í uppgröftum. Í halaendann sem stóð upp úr snúðnum var festur krókur úr málmi, oftast járni og nefnist hann hnokki. Snældunni var svo snúið til að vinda upp á sjálfan þráðinn. Snúðarnir voru ýmist gerðir úr steini, blýi, beini, leir eða tré og eru flatir að neðan en kúptir að ofan. Þetta er algengasta lag snúða frá fornöld og miðöldum en slíkir snúðar hafa fundist hvarvetna um Norðurlönd, allt frá rómverskri járnöld. Þeir eru misþungir og þvermál þeirra mismikið en þessir tveir þættir hafa áhrif á snúning bandsins og stjórna því t.d. hversu þéttur eða þykkur þráðurinn verður. Lítill snúður snýst hraðar en stór og gerir hann því þéttari og sterkari þráð en sá stóri sem gerir hinsvegar þykkara band.

 

Snældusnúðurinn var ekki alltaf hafður efst á snældunni, heldur var hann stundum neðst, sem var algengt í Evrópu. Skiptast þessar aðferðir í láan snúning (low-whorl) og háan snúning (high- whorl).Talið er að snældusnúðurinn hafi líka verið efst á snældunni í Egyptalandi til forna og má sjá hér að neðan egypsku híróglífur tákin fyrir snúning, sem eru greinilega snældur.

hieroglyphics

Á 11.öld kom hjólrokkurinn til sögunnar, fyrst í Asíu, en þá minnkaði nokkuð notkun á halasnældunum. Hún hélst þó lengi áfram á einhverjum stöðum, m.a. í Norður- Miðjarðarhafi. Þar var spunnið band á meðan fólk gekk á milli staða og er vel hægt að ímynda sér að það hafi einnig verið gert hér á landi. En rokkar voru þó ekki notaðir á Íslandi fyrr en snemma á 18.öld og tíðkaðist að spinna á halasnældu allt fram á miðja 20. öld. Mestallur vefnaður var svo unninn í vefstað, frá landnámstíð og fram yfir miðja 18.öld. Það þótti seinunnið og erfitt verk en konur á þjóðveldisöld framleiddu tvær aðalútflutningsvörur þjóðarinnar, vaðmál og vararfeldi (röggvar).

Anna a mig

Snældusnúður og hali frá Stóruborg. Á snúðinn er ritað: „Anna a mig” í höfðaletri, ásamt öðru skreyti. Þessi fallegi gripur fannst í gólflagi frá fyrri hluta 17. aldar, en hann gæti þó verið eldri.

Nokkrir viðargripir frá Alþingisreitnum eru keimlíkir halanum frá Stóruborg en ítarleg greining verður gerð á þeim síðar. Það þykir ekki ósennilegt að halarnir hafi varðveist á Alþingisreitnum þar sem varðveisla viðargripa er afar góð.

 

 

 

 

 


 

 

Heimildaskrá

 

David W. Anthony. 2009. The Horse, the Wheel and Language: How Bronze-Age Riders from the Eurasian Steppes Shaped the Modern World. Princeton Univeristy Press. 17. 08. 2009.

E.J.W. Barber. 1991. Prehistoric Textiles: The Development of Cloth in the Neolithic and Bronze Ages with Special Reference to the Aegean. Princeton University Press. 1991.

Elsa E. Guðjónsson. "Listræn textíliðja fyrr á öldum. Útsaumur, listvefnaður, skinnsaumur, knipl og útprjón". Hlutavelta tímans. Menningararfur á Þjóðminjasafni. Árni Björnsson og Hrefna Róbertsdóttir (ritstjórar). Þjóðminjasafn Íslands, Reykjavík 2004.

Elsa E. Guðjónsson. 1991. "Um rokka, einkum með tilliti til skotrokka". Árbók hins íslenzka fornleifafélags. Hið íslenzka fornleifafélag, Reykjavík 1991.

Guðrún Jóna Þráinsdóttir. 2011. Steinar í íslenskri fornleifafræði. Ritgerð til BA- prófs. Sótt á vefslóð: http://hdl.handle.net/1946/10009

Mjöll Snæsdóttir. 1980. "Anna á mig. Um snældusnúð frá Stóruborg". Árbók hins íslenzka fornleifafélags. Hið íslenzka fornleifafélag, Reykjavík 1980.

Wikipedia. The free Encyclopedia.