Prenta |

Uppgraftrarlok

Höfundur: Hrönn Konráðsdóttir.

site

Nú er sumri að ljúka og haustið tekur við og jafnframt er uppgrefti á Alþingisreitnum að ljúka og úrvinnslan tekur við.  Ýmislegt áhugavert hefur komið í ljós, bæði byggingar og gripir og fleira sem á eflaust eftir að koma í ljós í áframhaldandi rannsóknum.

Í sumar var grafið upp 400 fm svæði sem innihélt fornleifar frá 9-11 öld. Á svæðinu hafa fundist þónokkrar vegghleðslur, m.a. smiðja en hluti hennar gengur áfram undir Tjarnargötuna til vesturs. Afar vel varðveittur veggur kom í ljós  en ekki var hægt að sjá hvers lags byggingu hann tilheyrði því fornleifafræðingar náðu rétt einni hlið hennar. Mestur hluti byggingarinnar gekk svo undir Tjarnargötuna, en veggurinn var byggður úr grjóti og torfi með 871 landnámsgjóskunni. Það voru einnig nokkur eldstæði á svæðinu og vel gerð steinhellulögð stétt sem sést á næstu mynd. Það verður því krefjandi og spennandi verkefni að vinna úr öllum þessum mikilvægu upplýsingum sem fornleifafræðingar hafa tekið saman.  

hellur

Mikið af áhugaverðum gripum komu upp á yfirborðið þetta sumarið. Þónokkuð af textíl fannst sem er mjög spennandi þar sem hann varðveitist oft illa og verður hann skoðaður af sérfræðingi í vetur.

img 1129

Þá fundust nokkrir snældusnúðar  úr steini eins og til dæmis þessi:

snudur

Einnig fannst brot úr klébergsskál uppvið eitt eldstæðið sem hefur líklega verið innflutt frá Noregi:

img 1131

Og þessi fíni kvarnarsteinn sem var eflaust notaður til að mala bygg og kannski hveiti:

img 1134

Þetta blýmet fannst sem hefur verið notað til að vigta verslunarvöru:

IMG 2126

Kannski hefur það einnig verið notað til að vikta silfur eins og er í þessum fagra silfurarmbaug sem fannst í elstu jarðlögunum á svæðinu:

armbaugur1

Töluvert af dýrabeinum hefur einnig fundist í sumar og munu þau vera greind til tegunda í framhaldinu,  sum hafa verið skoðuð og eru meðal þeirra geirfuglabein, hvalbein og kattarbein.

img 8641

Við buðum uppá leiðsagnir í sumar, bæði á ensku og íslensku og mæltust þær mjög vel fyrir. Að meðaltali mættu 15-30 manns  í hverja leiðsögn og viljum við þakka þeim kærlega fyrir komuna og áhugann.

digital-atr-2012-08-24

Þetta hefur verið gott sumar, veðrið hefur leikið við fornleifafræðingana þó það hafi verið heldur þurrt fyrir fornleifarnar og margt merkilegt komið upp úr moldinni. Nú er kominn tími til að leggjast yfir gögnin og vinna úr þeim með rjúkandi kaffibolla og nýta þær til að nálgast þá sem bjuggu hér fyrir um 1000 árum síðan. Hverjir voru það og hvað höfðu þeir fyrir stafni, já það er sko mikil vinna eftir enn þó fornleifarnar hafi verið grafnar upp.