Prenta |

Kléberg, hvað er það?

Höfundur: Hrönn Konráðsdóttir.

img 1131

Ýmsir gripir hafa fundist í uppgreftrinum það sem af er sumri og á meðal þeirra er þetta brot úr skál eða grýtu sem hefur verið gerð úr klébergi. Kléberg er steintegund sem er einstaklega auðvelt að tálga, enda kallaður soapstone á ensku eða sápusteinn enda er hann ekki ólíkur sápu að koma við og tálga úr. Klébergið þolir þó vel hita og er því hægt að nota það í potta, grýtur og eldunarhellur. Það finnast nokkuð oft gripir gerðir úr því í uppgröftum og þá sérstaklega frá víkingaöld, en þá hafa slíkir gripir verið fremur algengir um allt land. Það hafa einnig fundist smærri hlutir úr klébergi hér á landi eins og snældusnúðar og jafnvel perlur. Kléberg finnst ekki á Íslandi og hefur það því verið flutt inn. Það finnst hins vegar í Noregi, á Hjaltlandi og Grænlandi og hefur komið til Íslands bæði í tilbúnum vörum og sem hráefni því einnig hefur fundist óunnið kléberg. Það er því alltaf áhugavert að finna gripi gerða úr klébergi því þeir bera þess vitni að hafa verið fluttir inn með fólki eða til verslunar.

(Heimildir eru aðalega úr Kuml og Haugfé eftir Kristján Eldjárn)

 

Prenta |

Leiðsögn um svæðið

Höfundur: Hrönn Konráðsdóttir.

digital-atr-2012-08-26

Fornleifafræðingar sem vinna á Alþingisreitnum hafa boðið upp á leiðsagnir um svæðið í sumar sem hafa mælst vel fyrir. Farið er á hverjum degi frá Aðalstræti, framan við Landnámssýninguna kl 11 og er þá boðið upp á leiðsögn á ensku. Á sunnudögum hefur aftur á móti verið leiðsögn á íslensku og hafa hóparnir talið 15-30 manns seinustu sunnudaga. Gaman er að sjá hve mikill áhugi er á uppgreftrinum og hvetjum við áhugasama til að mæta á næsta sunnudag kl 14 og nýta sér þessa þjónustu.