Alþingisreiturinn

Árið 2008 hófst fornleifarannsókn á Alþingisreitnum. Rannsóknin náði yfir svæðið frá Kirkjustræti að Vonarstræti meðfram Tjarnargötu. Svæðið hafði að geyma minjar allt frá upphafi landnáms til okkar tíma. Á svæðinu fannst töluvert af fornleifum frá fyrstu tíð. Um er að ræða skipulagt athafnasvæði landnámsmanna, þar sem járnvinnsla fór fram ásamt hefðbundnum störfum sem tilheyrðu húshaldi þessa tíma.

 

Reykjavík á landnámsöld

Í miðbæ Reykjavíkur er að finna ein elstu ummerki byggðar á Íslandi. Fornleifarannsóknir hafa leitt í ljós að mikil byggð var í Kvosinni á 9.-11. öld. Heillegar rústir hafa verið grafnar upp við Aðalstræti, Tjarnargötu og Suðurgötu.
Svæðið hefur breyst töluvert frá því á landnámsöld en rannsóknir benda til þess að við landnám hafi holtin í Reykjavík verið þakin birkiskógi. Á hefur runnið milli sjávar og Tjarnar og hefur því verið hægt að draga skip í var í Tjörnina. Einnig hefur mýrlendi verið víða í næsta nágrenni þar sem hægt hefur verið að sækja mýrarauða og mó. Þegar líða tekur á 10. öld fer skóglendi minnkandi, mólendi eykst og loftslag breytist.

Frá uppgraftarsvæðinu á horni Tjarnargötu og Kirkjustrætis, þessi hluti svæðisins liggur nú undir húsi.

Á því svæði sem nú er kallað Kvosin hefur snemma orðið blómlegð byggð. Minjar frá 9.-11. öld á Alþingisreitnum eru samtíða þeim mannvirkjum sem fundist hafa í Kvosinni á síðastliðinni öld Bendir því margt til þess að strax við upphaf landnáms hafi hér verið veglegt bæjarstæði og iðandi mannlíf.

Sumarið 2012 er fyrirhugað að rannsaka ítarlegar um 400 fermetra svæði sem aldursgreint hefur verið gróflega frá lokum 9. aldar og fram á 11. öld.

atr-2009-136-30 large